Það getur verið töluvert snúið að koma hnitum úr excel skjali yfir í punkta á korti, en ef maður veit úr hvað hnitakerfi hnitin eru er það talsvert auðveldara. Hér að neðan er sýnd ein leið til að gera þetta þar sem gráðum með aukastöfum er breytt í punkta á korti.
Best er að byrja á að snyrta til gögnin í excel, ákveða hvaða eigindir eiga að fylgja með og passa að hafa nöfn fyrir dálka efst í skjalinu.
Þegar búið er að stilla töflunni upp er farið í File>Save as> og velja að vista skjalið sem CSV (Comma delimited)(*.csv).
Í excel skjalinu voru skilin milli gráða og aukastafa komma, til þess að opna þetta í QGIS er mikilvægt að breyta þessum kommum í punkta. Ágæt leið til þess að gera þetta er að opna gögnin í Notepad, en þar er auðvelt að gera þetta með því að nota Replace… aðgerina sem er undir Edit í efstu tólastikunni.
Í Replace valmyndinni sem opnast er sett komma í Find what dálkinn og punktur í Replace with dálkinn, að þessu loknu er hægt að velja Replace All svo framalega sem engar aðrar kommur séu í skjalinu sem ekki mega hverfa. Það getur verið tímafrekt að fara í gegnum hverja kommu fyrir sig með því að velja alltaf Replace en það getur verið góður kostur ef um lítið af gögnum er að ræða. Þegar búið er að skipta kommum í hnitum út fyrir punkta er skjalinu vistað og því lokað.
Nú er hægt að opna skjalið í QGIS en það er gert með því að velja kommutáknið í tólastikunni til vinstri. Við það opnast Create a Layer from a Delimited Text File valmynd þar sem þarf að ganga úr skugga um að nokkur skref séu tekin. í þessu dæmi þarf að byrja á því að finna skrána undir Browse, næst er að velja hvernig skránni er skipt upp og í okkar tilfelli eru það semíkommur, en þannig býr Microsoft excel til .csv skár. Skilgreina þarf X fields og Y fields. Fyrir neðan birtist forskoðun af því hvernig eigindataflan muni líta út, ef dálkarnir skiptast ekki rétt eða ef íslenskan er skrítin þarf að fikta sig áfram og prófa að haka í aðra dáka og velja aðra tegund Encoding fyrir tungumálið.
Það fer eftir því á hvaða hnitakefi kortaglugginn er stilltur á hvort notendur lendi í vandræðum með næsta skref. Í þessu tilfelli er kortaglugginn stilltur á ISN93 sem hefur EPSG númerið 3057, en gögnin eru í WGS 84 sem er með EPSG númerið 4326.
Kortaglugginn gerir ráð fyrir því að gögnin sem verið er að opna séu í sama kerfi og glugginn sjálfur, en þessu er hægt að breyta. Til þess þarf að hægrismella á punktalagið sem á nú að vera komið í Layers Panel, veljið Properties við það opnast Layer Properties valmynd. Strax undir General þarf að velja rétt hnitakefi fyrir gögnin undir Coordinate reference system að því loknu er hægt að loka valmyndinni og þá ættu gögnin að birtast á sínum stað.
Punktarnir komnir inn á kortið og hægt að byrja að greina þá frekar.