Það er gaman að skoða GPS slóða bæði þegar búið er að ganga, en líka þegar verið er að skipuleggja ferðir. GPX er skráarskipta format GPS gagna og í þessari æfingu er GPS slóð bætt inn á kort sem GPX skrá. Þegar búið er að ferðast með GPS tæki er hægt að nálgast GPX skrá úr tækinu sjálfu, en einnig má finna mikið af slóðum á Wikiloc þar sem hægt er að hala niður GPX skrám og deila eigin skrám með heiminum.
Það er mjög einfalt að opna GPX skrár í QGIS, en vektor táknið í vinstri hliðarstikunni er valið, þar næst er það Browse og skráin fundin. GPX skráin er valin og þá er hægt að velja Open og þá á að birtast Select vector layers to add… valglugginn. Misjafnt er eftir hverju fólk er að sækjast, en fyrir þá sem vilja sjá hvaða leið var farin er nóg að velja track, nú er öllum valgluggum lokað og við það á slóðin að birtast í kortaglugganum.
Þegar slóðin hefur birst í kortaglugganum er hægt að breyta útliti hennar með því að tvísmella á lagið eða hægrismella og velja Properties. Undir Style er best að velja Simple line og þá er hægt að velja nýjan lit, birta línuna sem punktalínu og breyta þykkt hennar.
Athugið ef lögun línunar er undarleg getur verið að vitlaust hnitakerfi sé valið, hér er hægt að nálgast upplýsingar um hnitakerfi kortagluggans.